Enski boltinn | Mason hættir vegna alvarlegra höfuðmeiðsla

Mynd: Ryan Mason

Ryan Mason, sem hefur leikið með enska B-deildarliðinu Hull City, hefur orðið að hætta í fótbolta. Mason er aðeins 26 ára og varð fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum í leik gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í janúar á síðasta ári. Þá lenti hann í samstuði við Gary Cahill miðvörð Chelsea. Mason missti meðvitund og var síðan fluttur í skyndi á St.Mary’s sjúkrahúsið í London. Þar gekkst hann undir aðgerð vegna brotinnar höfuðkúpu.
Mason hefur síðan þá leitað til þriggja taugasérfræðinga og einnig taugaskurðlækna sem allir hafa ráðlagt honum að hætta í fótbolta, það sé einfaldlega of hættulegt fyrir hann að snúa aftur á fótboltavöllinn.
Ryan Mason hóf sinn feril hjá Tottenham en fór til Hull City árið 2016 fyrir félagsmet, 13 milljónir punda(um 1,8 milljarður íslenskra króna). Hann átti einn landsleik fyrir England.
Eins og sést á mynd þeirri sem fylgir þessari frétt er höfuð Mason mjög illa farið. Hann tók þessa mynd og sendi frá sér 31.desember á síðasta ári.

Deila