Enski boltinn | Alan Pardew ráðinn stjóri West Bromwich Albion

Mynd: NordicPhotos/Getty

Alan Pardew hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins WBA. West Brom situr í sextánda úrvalsdeildarinnar, aðeins tveimur stigum frá fallsæti, og rak Tony Pulis úr stjórastólnum fyrir níu dögum. John Carver, sem var aðstoðarmaður Pardew hjá Newcastle á sínum tíma, verður honum til halds og trausts á The Hawthorns.

Pardew, sem er 56 ára, býr að ágætri reynslu í stjórastarfinu, hefur stýrt Reading, West Ham, Charlton, Southampton, Newcastle og nú síðast Crystal Palace, hvar hann átti einmitt sín bestu ár sem leikmaður. Þessi reynsla er Guochuan Lai, kínverskum eiganda WBA, mjög að skapi, en hann ku hafa lagt ofuráherslu á það að nýr stjóri væri reynslubolti.

„Fyrsta áskorunin er að ná úrslitum sem færa okkur ofar í töflunni“, er haft eftir nýráðnum stjóra á heimasíðu WBA. „Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er genginn til liðs við rótgróið félag, eitt af bestu félögunum í enska boltanum, og þetta félag ætlar að festa sig í sessi og sækja fram í úrvalsdeildinni.“

Gary Megson tók við stjórnartaumunum tímabundið þegar Pulis var látinn taka pokann sinn, en hann lætur af störfum hjá félaginu nú þegar Pardew hefur verið ráðinn. Megson stýrði WBA um fjögurra ára skeið í upphafi tíunda áratugarins, en er kannski þekktastur meðal íslenskra knattspyrnuáhugamanna fyrir að vera maðurinn sem missti stjórastarfið hjá Stoke þegar íslenskir fjárfestar keyptu það ágæta félag.

Deila