EM2018 | Frakkar til alls líklegir eftir sigur á Svíum | Króatar höfðu sigur á Norðmönnum

Mynd: cro2018.ehf-euro.com

Frakkar og Króatar sitja í efstu sætum milliriðis 1 á EM í handbolta í Króatíu eftir nokkuð sannfærandi sigra í skandinavískum mótherjum í dag; Frakkar höfðu betur gegn Svíum, 23-17, og Króatar lögðu Norðmenn 32-28. Frakkar og Króatar hafa sex stig, Frakkar eftir einn leik í milliriðli og Króatar eftir tvo, og Norðmenn og Svíar hafa fjögur stig, Norðmenn eftir tvo leiki og Svíar einn. Hvít-Rússar og Serbar eru án stiga og eiga ekki möguleika á að komast í undanúrslit.

Frakkar höfðu lengstum undirtökin í leiknum í dag, Svíar nörtuðu í hælana á þeim í fyrri hálfleik og framan af þeim síðari, en þegar á þurfti að halda tók Nikola Karabatic völdin og sýndi það og sannaði að hann er að öllu samanlögðu besti handboltamaður í heimi og að gæðin liggja ekki eingöngu í skoruðum mörkum. Þá lagði markvörðurinn Vincent Gérard þung lóð á vogarskálarnar, minnir um margt á goðsögnina Thierry Omeyer bæði útliti og atgervi. Franska liðið lítur ljómandi vel út, einu sinni sem oftar, og virðist til alls líklegt á þessu Evrópumóti.
Króatar fögnuðu sigri gegn Norðmönnum í síðari leik dagsins, 32-28, og voru vel að honum komnir. Króatíska vélin mallaði takföst í dag og loksins, eftir dágóða bið, var markvarslan á pari. Norðmenn gáfu sitt ekki eftir, misstu dampinn aðeins um miðjan síðari hálfleikinn og tóku nokkrar afar varhugaverðar ákvarðanir, en létu heimamenn hafa fyrir hlutunum.

Svíþjóð 17-23 Frakkland (8-10)
Mörk Svía: Simon Jeppson 4, Albin Lagergren 3, Niclas Ekberg 2, Jim Gottfridsson 2, Jerry Tollbring 1, Hampus Wanne 1, Johan Jakobsson 1, Mattias Zachrisson 1, Jesper Nielsen 1, Lukas Nilsson 1.
Mörk Frakka: Cedric Sorhaindo 5, Kentin Mahé 4, Michael Guigou 3, Nicolas Claire 3, Valentin Porte 3, Nikola Karabatic 2, Nedim Remili 1, Dika Mem 1, Nicolas Tournat 1.
Króatía 32-28 Noregur (17-15)
Mörk Króata: Manuel Strlek 6, Luka Cindric 5, Marko Mamic 4, Marino Maric 3, Luka Stepancic 3, Zlatho Horvat 3, Ivan Cupic 3, Zeljko Musa 3, Marko Kopljar 1, Igor Karacic 1.
Mörk Norðmanna: Sander Sagosen 8, Kristian Björnsen 6, Kent Tönnesen 4, Bjarte Myrhol 3, Goran Johannessen 3, Magnus Jondal 2, Magnus Gullerud 1, Eivind Tangen 1.

Deila