EM2018 | Cervar sektaður fyrir að grípa til andstæðings

Mynd: NordicPhotos/Getty

Lino Cervar, þjálfari króatíska landsliðsins í handknattleik, hefur verið sektaður fyrir að grípa í einn leikmanna Hvít-Rússa undir lok leiks liðanna á EM í Króatíu í gær. Sektin hljóðar upp á 3000 evrur, tæplega 390 þúsund krónur íslenskar, en þriðjungur sektarupphæðarinnar er þó felldur niður verði Cervar til friðs það sem eftir lifir móti. Þeir sem gerst til þekkja höfðu margir spáð því, jafnvel gengið út frá því, að Cervar yrði dæmdur í bann.

Atvikið átti sér stað þegar 31 sekúnda lifði leik, sem Króatar unnu með tveggja marka mun, 25-23. Margir furðuðu sig á því að Cervar skyldi ekki fá rauða spjaldið fyrir að grípa í Hvít-Rússann, sem hefði þá þýtt að Króatar hefðu leikið síðustu hálfu mínútuna manni færri og ómögulegt að segja til um hvort og þá hvaða áhrif mannamunur hefði haft á niðurstöðuna.

Aganefnd Evrópska handknattleikssambandsins, EHF, tók málið fyrir, skoðaði bæði ljósmyndir og myndbönd af atvikinu og komst að þeirri niðurstöðu að Cervar hefði verið valdur að minniháttar snertingu við leikmann andstæðinganna. Aganefndin ítrekar í niðurstöðu sinni að reyndur og virtur þjálfari á borð við Cervar eigi að vita það að jafnvel hin minnsta snerting, hvort sem hún er viljandi eða óviljandi, er óleyfileg. Úrskurður aganefndar er að framkoma Cervar hafi verið óviðeigandi og óíþróttamannsleg.

Deila