EHF Meistaradeild | Löwen og Vardar skildu jöfn | PSG marði sigur á Kielce | Álaborg vann Veszprém

Mynd: ehfcl.com

Níundu umferð Meistaradeildar karla í handknattleik lauk í dag og óhætt er að segja að boðið hafi verið til veislu. Í A-riðli skildu Rhein-Neckar Löwen og Vardar jöfn í frábærum handboltaleik, 21-21, og Evrópumeistarar Vardar eru sem fyrr ósigraðir í efsta sæti riðilsins. Vardar hefur sextán stig, þremur meira en Nantes, og hefur leikið fjórtán Meistaradeildarleiki í röð án taps. Alexander Petersson skoraði fjögur fyrir Löwen í dag, skoraði úr helmingi skota sinna. Guðjón Valur Sigurðsson kom ekkert við sögu. Löwen er, ásamt Barcelona, einu stigi á eftir Nantes. Kristianstad tryggði stöðu sína í sjötta sæti riðilsins, síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í næstu umferð, með sigri á Pick Szeged, 33-32. Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu sín hvor tvö mörkin fyrir Kristianstad í dag, en Albin Lagergren fór mikinn í markaskorun, skoraði tólf mörk.
Paris St.Germain heldur toppsætinu í B-riðli eftir sigur á Kielce í Póllandi, 30-29. Nikola Karabatic varð þess vafasama heiðurs aðnjótandi í leiknum að fá að líta rauða spjaldið, en sú niðurstaða dómaranna þótti umdeilanleg. Flensburg fylgir PSG eins og skugginn, vann Celje Lasko á útivelli 30-27 og er í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir Parísarliðinu. Álaborg hrærði upp í toppbaráttu riðilsins með því að vinna Veszprém nokkuð óvænt á heimavelli, 29-26. Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk fyrir Álaborg.
Í C-riðli hafði Elverum betur gegn Dinamó í Búkarest, 34-33, en úrslitin hafa ekki afgerandi áhrif á niðurstöðu riðilsins. Elverum getur að vísu náð Gorenje Velenje að stigum, en stendur höllum fæti í innbyrðisviðureignum liðanna og getur því aldrei náð öðru sæti riðilsins.
Í D-riðli vann Besiktas sigur á Montpellier á útivelli 33-28 og þau úrslit eru einna helst merkileg í því ljósi að Montpellier var fyrir leikinn í dag eina liðið í Meistaradeildinni með fullt hús stiga, hundrað prósent árangur. Montpellier í Zaporozhye hafa þegar tryggt sér tvö efstu sæti riðlsins og þar með sæti í umspili um að komast í næstu umferð.

A-riðill:
Rhein-Neckar Löwen 21-21 Vardar
Kristianstad 33-32 Pick Szeged

B-riðill:
Vive Kielce 29-30 Paris St.Germain
Celje Lasko 27-30 Flensburg
Álaborg 29-26 Veszprém

C-riðill:
Din.Búkarest 33-34 Elverum
D-riðill:
Montpellier 28-33 Besiktas

Deila