EHF Meistaradeild kvenna | Tíu lið hafa tryggt sér sæti í milliriðlum | Larvik og Kristiansand eygja möguleika

Mynd: NordicPhotos/Getty

Tíu lið hafa nú tryggt sér sæti í milliriðlum Meistaradeildar kvenna í handknattleik; keppni í B-riðli er lokið og þrjú lið eru þar örugg áfram, þrjú lið hafa tryggt sig áfram úr A-riðli þótt lokaniðurstaðan sé enn óljós og fjögur lið úr C- og D-riðlum hafa sömuleiðis tryggt sér sæti í milliriðli. Norsk lið berjast fyrir síðustu lausu sætunum í milliriðli 2; Larvik á enn möguleika á að komast upp úr C-riðli, en til þess að það gangi eftir þarf liðið að ná stigi gegn Ferencvaros á útivelli á morgun og Kristiansand þarf sigur gegn Buducnost á útivelli síðar í dag til að komast áfram.

Györi vann Brest örugglega, 26-17, í lokaumferð B-riðils í dag og hlaut tíu stig í efsta sæti riðilsins. Rostov-Don hafði betur gegn Midtjylland 27-20 og varð í öðru sæti riðilsins með átta stig og Midtjylland varð í þriðja sæti með sex stig. Stigasöfnunin skiptir máli þegar í milliriðlana er komið, liðin taka með sér stigin sem þau vinna sér inn í innbyrðisviðureignum liðanna sem fara áfram og Györi fer því í milliriðil 1 með 6 stig (tveir sigrar gegn Midtjylland og sigur gegn Rostov-Don), Rostov-Don með 4 stig (sigrar gegn Györi og Midtjylland) og Midtjylland með 2 stig (sigur gegn Rostov-Don). Í milliriðil 1 fara einnig þrjú efstu lið A-riðils; CSM frá Búkarest, NFH og RK Krim, CSM tekur með sér 6 stig, en NFH og Krim mætast í lokaumferðinni á morgun og þá kemur í ljós hversu mörg stig liðin taka með sér í milliriðil.
Í C-riðli eru Vardar og FTC örugg áfram, en Larvik og Thüringer berjast um þriðja sætið, síðasta sætið inn í milliriðil 2. Örlögin eru í höndum Larvíkurstúlkna þar sem Thüringer hefur lokið leik með 2 stig, jafnmörg og Larvik sem á leik til góða. Þær norsku þurfa að sækja stig á heimavelli gegn FTC á morgun þar sem Thüringer stendur betur í innbyrðisviðureignum sínum gegn Larvik sem munar einu marki.
Í D-riðli eru Metz og Bietigheim komin áfram, en Buducnost og Kristiansand berjast um þriðja sætið og mætast í Ungverjalandi í dag. Buducnost hefur fjögur stig og Kristiansand tvö stig, en Kristiansand vann fyrri leik liðanna með tíu marka mun og nægur því sigur í dag til að tryggja sér sæti í milliriðli.

Úrslitaleikirnir sem ráða örlögum norsku liðanna verða báðir í netútsendingu á SportTV2 á sporttv.is, Buducnost – Kristiansand klukkan 18 í dag og Larvik – FTC klukkan 14 á morgun, sunnudag.

Deila