EHF Meistaradeild kvenna | Það sem við vitum eftir riðlakeppnina

Mynd:Györi ETO

Nú þegar sex umferðir hafa verið spilaðar í Meistaradeild kvenna í handbolta er við hæfi að líta aðeins yfir farinn veg, kveðja riðlakeppnina og halda yfir í milliriðla. Fyrst af öllu er líklega réttast að minnast á þau lið sem fallið hafa úr keppni. Skandinavísku félögin Larvik og Vipers börðust af lífi og sál til þess að verða á meðal 12 bestu en féllu út á lokametrunum. Á meðan franska liðið Brest og pólska liðið Vistal Gdynia duttu úr keppni án þess að vinna svo mikið sem eitt stig í riðlakeppninni, en það er þó ljóst að bæði þessi lið eru reynslunni ríkari eftir þátttöku í Meistaradeildini þetta árið.

Tölfræðin lýgur ekki
Makedónska liðið Vardar hefur sýnt mestan stöðugleika allra liða fram til þessa og hefur skorað 182 mörk, sem gerir þær makedónsku að öðru besta sóknarliðinu í Meistaradeildinni. Athygli vekur að markaskorun dreifist jafnt á leikmenn liðsins og eiga þær engan leikmann á topp fimm yfir markahæstu leikmenn. Andrea Penezic er þeirra markahæsti leikmaður með 37 mörk, en þar á eftir koma fjórir leikmenn með 19 mörk eða fleiri og þrír leikmenn sem hafa skorað 10 mörk eða fleiri.

Það er ekki hægt að tala um sóknarleik án þess að minnast á CSM Búkarest en þær hreinlega geta ekki hætt að skora. Rúmenska liðið hefur skorað 192 mörk, sem gerir 32 mörk að meðaltali í leik, en markaskorun liðsins drefist á mun færri leikmenn heldur en hjá Vardar. Þær Cristina Neagu, 42 mörk, og Isabelle Gulldén, 27 mörk, hafa skorað einn þriðja af mörkum rúmenska liðsins.

Mynd:ehfcl.com

Markahæsti leikmaður Meistraradeildarinnar í riðlakeppninnni er Iveta Luzumova, leikmaður Thüringer, en hún er búin að skora 50 mörk. Fast á hæla hennar kemur Veronica Kristiansen með 47 mörk. Hún leikur með Midtjylland, en danska liðið er komið í milliriðla í níunda sinn.

Öllum að óvörum er Nykøbing með fjórðu bestu sóknina, en danska liðið hefur skorað 168 mörk. Hins vegar hefur varnarleikur liðsins ekki verið upp á marga fiska þar sem liðið hefur fengið á sig 163 mörk. Ungverska liðið FTC, ásamt þýska liðinu Thüringer, eru hins vegar með lökustu varnirnar, en bæði lið hafa fengið á sig 167 mörk í þeim sex leikjum sem búnir eru. Bestu varnarlið riðlakeppninnar eru Györ og Rostov-Don, en bæði lið hafa fengið á sig 126 mörk sem gerir 21 mark að meðaltali. Sóknarleikur ungverska liðsins er hins vegar langt frá því að vera eins góður og hjá þeirra helstu keppninautum, CSM og Vardar, en Györ hefur aðeins skorað 101 mark í þessum sex leikjum.

Anita Görbcz náði þeim merka áfanga í síðasta leik riðlakeppninnar að skora sitt 900.mark í Meistaradeild Evrópu, en Anita hefur verið ein allra besta handknattleikskona heims um ára raðir.

Hrinur
Oft er hægt að spá fyrir um möguleika liðanna í milliriðlakeppninni með því að rýna í vinningshlutföll þeirra. Vardar hefur unnið alla sína leiki til þessa, en þær spila gegn Metz,Buducnost og Bitetigheim í milliriðlinum og verður að teljast líklegt að sigurhrina makedónska liðsins muni halda áfram í gegnum þá keppni.

Eftir tap liðsins gegn Rostov-Don, hefur Györ unnið þrjá leiki í röð og þær eru ákveðnar í því að tengja þá sigurhrinu inn í milliriðlakeppnina. Það sama má segja um rúmenska liðið CSM Bukaresti, en þær hafa enduðu einnig riðlakeppnina með því að vinna þrjá síðustu leiki sína. Hins vegar er útlitið ekki eins bjart hjá Thüringer, en það að vinna leik er langt frá því að vera einhver ávani hjá þýska liðinu. Þær töpuðu 5 síðustu leikjum sínum í riðakeppnini, en komust þrátt fyrir það áfram í milliriðil. Það þarf hreinlega kraftaverk til þessa að þýska liðið vinni leik í milliriðlunum.

Midtjylland og Krim töpuðu bæði síðasta leiknum í riðlakeppninni og það er kannski full snemmt að tala um einhverja taphrinu hjá þeim. Bæði lið vita að þau þurfa að sigra í fyrsta leik í milliriðlunum til þess að eiga möguleika á að komast áfram en þessi lið mætast einmitt í fyrstu umferð.

Niðurstaða
Á meðan það er mjög erfitt að horfa framhjá þeim þremur stóru, Vardar, CSM og Györ, þegar kemur að því að spá fyrir um hvaða lið komast í Final4 er það einnig hreinlega ógerningur að segja til um hvert fjórða liðið verður. Þó má ætla að sú keppni verði á milli spútnik liðsins Nykøbing og Rostov-Don. Keppnin í milliriðlum gefur færri tækifæri til tilraunastarfsemi liðanna en það er einnig þá sem stöðugleiki og breidd liðanna fer að skipta máli. Gott gengi Vardar hefur verið til hreinnar fyrirmyndar fram að þessu en jafnframt setur það aukna pressu á liðið að viðhalda því allt til loka tímabilsins.

Mynd:NFH

Heimsmeistaramótið sem er nú á næsta leyti getur líka haft áhrif á það hvernig gengi liðanna verður í Meistaradeildinni þegar hún hefst aftur. Ástand leikmanna, bæði líkamlegt og andlegt, getur breyst til bæði betri og verri vegar eftir heimsmeistaramótið.

Það er ljóst að það er spennandi keppni framundan í Meistaradeildinni þegar hún hefst á nýjan leik þann 26.janúar. Meistaradeild kvenna, sem og karla, verður sem fyrr í beinni útsendingu á SportTV þegar þráðurinn verður tekinn upp á ný eftir áramót.

Deila