EHF Meistaradeild kvenna | Naprir vindar blása í Noregi

Mynd: NordicPhotos/Getty

Lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í handknattleik fer fram um helgina og nú háttar svo til að óvíst er hvort norsk félagslið komast í næstu umferð. Sú var tíðin að Larvik komst undantekningalaust í átta liða úrslit, varð Evrópumeistari 2011 og lék til úrslita árið 2015. Larvik er í riðlakeppninni í ár, eins og Vipers frá Kristiansand, en liðin sitja í neðstu sætum sinna riðla og eiga á hættu að falla úr leik um helgina. Larvik er í baráttu við Þýskalandsmeistara Thüringer um að komast áfram úr C-riðli; liðin eru jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti og um helgina tekur Larvik á móti FTC en Thüringer heimsækir taplaust lið Vardar. Kristiansand berst við Buducnost um þriðja sæti D-riðils nægir sigur í innbyrðisviðureign á sunnudag til að tryggja sig áfram.

Staða Larvik í dag ætti í raun ekki að koma á óvart. Hryggjarsúlan í liðinu er horfin á braut; Nora Mörk, Sandra Toft, Alma Hazanic, Amanda Kurtovic, Alina Wojtas, Marit Malm Frafjord, Gro og Anja Hammerseng-Edin og Sanna Solberg ýmist réru á önnur mið eða lögðu skóna á hilluna og endurnýjunarferli er hafið. Liðið hefur sankað að sér efnilegum leikmönnum, en uppbyggingar- og endurnýjunarferlið tekur sinn tíma. Það hefur reyndar ekki hjálpað til að Thea Mörk, tvíburasystur Noru, hefur ekkert spilað á þessari leiktíð vegna meiðsla, Tine Stange er fyrst núna að stíga upp úr meiðslum og Linn-Kristin Riegelhuth Koren er barnshafandi. Fjárhagsvandræði undanfarinna ára virðast þó úr sögunni, en menn hafa lært af mistökunum og spenna bogann ekki of hátt. Larvik keppir ekki við fjársterkustu félög álfunnar þegar kemur að leikmannakaupum, en Tor Odvan Moen þykir hafa unnið ágætlega úr ungum og efnilegum leikmannahópi sínum.
Kristiansand er komið ögn lengra í endurnýjun, forráðamenn liðsins þykja hafa haldið vel á spilum undanfarin ár, en Kristiansand er þó að upplifa gamla sögu og nýja; nýliðum í Meistaradeildinni farnast alla jafna bagalega og þurfa tíma. Nokkra athygli vakti að tvíburasysturnar Katrine og Kristine Lunde sameinuðust á ný hjá Kristiansand í sumar. Kristine ætlaði upphaflega að sinna starfi aðstoðarþjálfara og láta iðkun liggja á milli hluta, en meiðsli Marta Tomac urðu til þess að hún varð að skeiða til vallar, með ágætum árangri. Katrine hefur um árabil verið einn besti markvörðurinn í kvennahandboltanum, en yngist ekki frekar en við hin.

Norðmenn bíða niðurstöðu helgarinnar fullir spennu. Jörðin heldur áfram að snúast þótt Larvik og/eða Kristiansand falli úr leik, framtíðarhorfurnar eru ágætar og áhersla er lögð á að halda rétt á spilum.

Deila