EHF Meistaradeild kvenna | Györi ETO Evrópumeistarar eftir sigur á Vardar í stórkostlegum leik

Mynd: ehfcl.com

Úrslitaleikurinn í Meistaradeild kvenna fór fram í Búdapest í dag en þar áttust við Györi ETO og Vardar. Það var búist við hörkuleik en þessi sögu lið áttust einnig við í úrslitaleiknum í fyrra. Ungverska liðið byrjaði leikinn betur og var oft á tíðum hrein unun að horfa á varnarleikinn hjá þeim á upphafsmínútunum. Vardar náðu þó að vinna sig hægt og rólega inní leikinn og þegar um tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum náðu þær að jafna metin 8-8. Síðustu tvær mínúturnar skiptust liðin á að skora sitt hvor 2 mörkin og því var jafnt í hálfleik 10-10. Í síðari hálfleik var jafnt á öllum tölum og spennan var rafmögnuð í höllinni sem var fyllt af 12.000 áhorfendum, lokamínúturnar voru vægast sagt spennandi. Þegar tuttugu sekúndur eru eftir af leiknum kemur Andrea Lekic, vardar yfir 20-19 en þá tekur Martin Ambros þjálfri Györ leikhlé. Györ stillir upp í sókn og þegar tíu sekúndur eru eftir nær Eduardo Amorim að jafna leikinn 20-20 en þá var enn margt eftir að gerast, Vardar fer í sókn og ná sendingu inná línu þegar 3 sekúndur eru eftir en Dragana Cvijic skaut í stöng og þar með rann leiktíminn út. Því þurfti að framlengja leikinn en hana byrjuðu Györ betur og komust þremur mörkum yfir 26-23 en leikmenn Vardar neituðu að gefast upp og þegar tæp mínúta var eftir af framlengingunni minnkuðu þær muninn niður í eitt mark 27-26. Györ fór í sókn og þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum er boltinn dæmdur af þeim og leikmenn Vardar geysast upp í hraðaupphlaup þar sem Andrea Canadija komst ein á móti Evu Kiss, markmanni Györ en hún brenndi af þessu dauðafæri og þar með rann leiktíminn út og Györi tryggði sér sigur í Meistaradeild kvenna annað árið í röð.

Meistaradeild kvenna | Final4 | Úrslitaleikur

Györi ETO 27-26 Vardar (10-10, 20-20)
Mörk Györi: Nycke Groot 8, Eduarda Amorim 6, Bernadett Bodi 4, Anita Görbicz 3, Anne Mette Hansen 3, Stine Bredal Oftedal 2, Yvette Broch 1.
Varin skot: Kari Aalvik Grimsbo 6, Eva Kiss 3.
Mörk Vardar: Andrea Lekic 6, Jovanka Radicevic 4, Barbara Lazovic 3, Andrea Penezic 3, Alexandra Lacrabere 3, Andrea Canadija 2, Polina Kuznetsova 2, Sara Ristovska 2, Dragana Cvijic 1.
Varin skot: Amandine Leynaud 17, Inna Suslina 1.

Hér má sjá hápunkta úr leiknum

Deila