EHF Meistaradeild kvenna | CSM í Final4 þrátt fyrir sjö marka tap í Frakklandi

Mynd: ehfcl.com

CSM frá Búkarest varð í dag fjórða og síðasta liðið til að bóka sæti í úrslitum Meistaradeildar kvenna í handknattleik, Final4, sem fram fer í Búdapest 12. og 13.maí næstkomandi. CSM tapaði að vísu fyrir Metz í Frakklandi í dag 20-27, en fagnaði þrettán marka sigri í fyrri leiknum og vann því viðureignina með sex marka mun samanlagt.
Liðin sem mætast í Final4 eru Vardar, Rostov-Don, CSM og Evrópumeistarar Györi. Dregið verður í undanúrslitin á þriðjdaginn.

Ljóst var fyrir leikinn í dag að verkefni Metz-stúlkna var ærið og nánast óvinnandi vegur að vinna upp þrettán marka mun úr fyrri leiknum, en þær frönsku verða ekki sakaðar um að hafa lagt árar í bát. Stöndugur varnarleikur þeirra kom sterkum sóknarmönnum CSM í daglöng vandræði og Marina Rajcic fór hamförum í markinu, en hins vegar vor þær frönsku á löngum köflum mistækar í sókninni. Staðan í hálfleik var 14-9 fyrir Metz og fjótlega í síðari hálfleik náðu þær frönsku níu marka forystu. Þær fengu færi á að saxa enn betur á forskot CSM, en rúmenska liðið gerði það sem þurfti á lokakaflanum og sætti sig fyllilega við sjö marka tap, 20-27. CSM vann viðureignina samanlagt 54-48.

EHF Meistaradeild kvenna | 8-liða úrslit | Síðari leikir
Metz 27-20 CSM (14-9) | Samanlagt 54-58
Mörk Metz: Manon Houette 7, Xenia Smits 6, Jurswailly Luciano 4, Ana Gros 3, Beatrice Edwige 2, Laura Flippes 2, Grace Zaadi 1, Meline Nocandy 1, Marion Maubon 1.
Varin skot: Marina Rajcic 16.
Mörk CSM: Cristina Neagu 8, Isabelle Gulldén 7, Gnonsiane Niombla 2, Marit Malm Frafjörd 1, Amanda Kurtovic 1, Majda Mehmedovic 1.
Varin skot: Jelena Grubisic 4, Paula Ungureanu 3.

Deila