EHF Meistaradeild kvenna | Buducnost vann Kristiansand og tryggði sér sæti í milliriðli

Mynd: ehfcl.com

Buducnost hafði í dag betur gegn Kristiansand, 26-23, í sjöttu og síðustu umferð D-riðil Meistaradeildar kvenna í handknattleik og tryggði sér þar með sæti í milliriðli á kostnað norska liðsins. Kristiansand hefði með sigri jafnað Buducnost að stigum, norska liðið vann fyrri leik liðanna með tíu marka mun og hefði því unnið báðar viðureignir sínar gegn Buducnost og tryggt sér þriðja sæti riðilsins og þar með sæti í milliriðli.
Kristiansand hafði tveggja marka forystu í Ungverjalandi í dag, 13-11, og hélt forystunni framan af síðari hálfleik, en lokaspretturinn var allur heimastúlkna og þær höfðu að lokum þriggja marka sigur.
Milan Raicevic var markahæst í liði Buducnost í dag með sjö mörk og Matea Pletkosic skoraði fimm mörk. Linn Jorum Sunnland var atkvæðamest í liði Kristiansand með tíu mörk og Emilie Arntzen skoraði fjögur mörk.

Metz, Bietigheim og Buducnost fara áfram úr D-riðli, en Kristiansand situr eftir. Ljóst er að Buducnost tekur fjögur stig með sér í milliriðil 2, en Metz og Bietigheim mætast í Frakklandi á morgun og úrslit þess leiks ráða endanlegri stöðu í riðlinum og því hversu mörg stig hvort liðanna tekur með sér.

Nú er aðeins eitt laust sæti eftir í milliriðlunum, sæti sem Larvik og Thüringer berjast um. Liðin eru jöfn að stigum, Thüringer hefur lokið leik, en Larvik á eftir heimaleik gegn FTC á morgun. Stig úr þeim leik tryggir Larvik sæti í milliriðli 2, sigur FTC tryggir hins vegar Thüringer áframhaldandi þátttökurétt.
Leikur Larvíkur og FTC verður í beinni netútsendingu á SportTV2 klukkan 14 á morgun og útsendinguna má nálgast á vefsíðunni sporttv.is.

CSM, NFH, Krim Mercator, Györi, Rostov-Don og Midtjylland hafa tryggt sér sæti í milliriðli 1 og Vardar, FTC, Metz, Buducnost og Bietigheim eru örugg með sæti í milliriðli 2.

Deila