EHF Meistaradeild kvenna | Ambros Martin ráðinn þjálfari Rostov-Don

Mynd: NurPhoto/Alex Nicodim

Forráðamenn rússneska handboltaliðsins Rostov-Don hafa staðfest að Spánverjinn Ambros Martin mun stýra liðinu á næstu leiktíð, en Ambros yfirgefur í lok leiktíðar Evrópumeistara Györi eftir sex ára titlasöfnun. Martin hefur samið við Rostov-Don til eins árs, en lengd samningsins vekur nokkra athygli, og tekur við góðu búi af Frédéric Bougeant, sem í sumar heldur heim til Frakklands og tekur þar við liði Nantes.

Ambros tók við þjálfun Györi árið 2012 og hefur stýrt liðinu til Evróputignar í þrígang; 2013, 2014 og 2017, auk þess sem liðið lék til úrslita 2016 en tapaði þá fyrir CSM frá Búkarest. Þá hefur hann verið valinn besti þjálfari Meistaradeildar kvenna þrjú ár í röð. Ambros tilkynnti nokkuð óvænt um miðjan febrúar að hann hyggðist láta af störfum hjá Györi og degi síðar bárust fregnir af því að hann hefði verið ráðinn þjálfari Rostov-Don. Þau tíðindi voru snarlega borin tilbaka og Martin var svo sterklega orðaður við CSM þegar Helle Thomsen var látin taka pokann sinn. Nú er hins vegar komin staðfesting á ráðningu frá forráðamönnum Rostov-Don.

Rostov-Don mætir Vardar í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í ár og gæti mætt Györi í úrslitaleik, en Györi glímir við CSM í hinni undanúrslitaviðureigninni. Rússneska liðið er geysilega vel mannað og líklegt til afreka og ekki eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á leikmannahópnum fyrir næstu leiktíð. Hollenska landsliðskonan Lous Abbingh bætist reyndar í hópinn frá Issy Paris og Siraba Dembélé og Alexandrina Cabral færa sig yfir til Frakklands í sumar, Dembélé til Toulon og Cabral til Nantes.

Deila