EHF Meistaradeild kvenna | 25 verðlaunahafar á HM í milliriðlum Meistaradeildar

Mynd: ehfcl.com

Keppni í milliriðlum Meistaradeildar kvenna í handknattleik hefst þann 26.janúar næstkomandi og byrjar reyndar með látum; fyrsti leikurinn er stórleikur CSM frá Búkarest og Evrópumeistara Györi, tveggja liða sem nær öruggt má telja að verði í sviðsljósinu á úrslitahelginni, Final Four, í maí. Í liðunum sem taka þátt í milliriðlum eru alls 25 leikmenn sem unnu til verðlauna á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Þýskalandi, þ.e. úr meistaraliði Frakklands, silfurliði Noregs og bronsliði Hollands. Ef Svíar, sem urðu í fjórða sæti, eru taldir með eru leikmennirnir orðnir þrjátíu talsins.

Heimsmeistarar Frakklands eiga flesta leikmenn í milliriðlum Meistaradeildarinnar, 11 alls. Tvær franskar landsliðskonur til viðbótar leika með Brest, sem komst ekki áfram úr fyrstu umferð riðlakeppninnar. Norðmenn eiga 6 leikmenn í millriðlum og þrjá sem léku með Kristiansand og Larvik, sem komust ekki áfram. Átta leikmenn í milliriðlunum voru í hollenska bronsliðinu á HM.

Lið CSM átti fulltrúa í öllum liðunum fjórum sem léku í undanúrslitum HM. Með rúmenska stórliðinu leika heimsmeistararnir Camille Ayglon Saurina og Gnonsiame Niobla, silfurverðlaunahafinn Amanda Kurtovic og sænsku stúlkurnar Isabelle Gullden, Nathalie Hagman og Sabrina Jacobsen. Þjálfari CSM er hin danska Helle Thomsen, sem einnig þjálfar bronslið Hollands.
Í liði Metz eru sex nýkrýndir heimsmeistarar, tveir hjá Vardar og einn hjá Rostov-Don. Í liði Evrópumeistara Györi eru þrír leikmenn úr silfurliði Noregs og tveir úr bronsliði Hollands. Tvær norskar silfurstúlkur leika með Midtjylland, fjórir Hollendingar með Bietigheim og tvær hollenskar með FTC.

Allar stúlkurnar sem valdar voru í úrvalslið HM, að Katrine Lunde frátalinni, leika í milliriðlum Meistaradeildarinnar. Besti leikmaðurinn, Stine Bredal Oftedal, markahæsti leikmaðurinn Nora Mörk og hin hollenska Yvette Broch leika með Györi, hin franska Siraba Dembele leikur með Rostov-Don og landa hennar Grace Saadi með Metz, Laura van der Heijden frá Hollandi leikur með FTC og hin sænska Nathalie Hagman með CSM.

Deila