EHF Meistaradeild karla | Veszprém með fullt hús

Mynd: NordicPhotos/Getty

Alfreð Gíslason fór með sína menn í Kiel til Ungverjalands í dag í Meistaradeildinni í handbolta. Fyrir leikinn hafði Veszprém unnið alla sína þrjá leiki en Kiel var með einn sigurleik og tvo tapleiki. Kiel byrjaði mjög vel og komst í 7-3 og eftir 15 mínútur var staðan 9-5 fyrir Kiel. Í hálfleik var staðan 15-12 Kiel í vil. Andreas Wolff var frábær í marki Kiel í fyrri hálfleik og varði 11 skot og lagði grunninn að þessari forystu. Dæmið snérist við í seinni hálfleik og Veszprém skoraði 7 mörk á móti tveimur frá Kiel á fyrstu 15 mínútunum. Kiel náði að jafna metin 23-23 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Veszprém hafði betur, 26-24. Roland Mikler var frábær í marki Veszprém í seinni hálfleik og var valinn maður leiksins. Momir Ilic skoraði 6 mörk og Mate Lekai 5. Steffen Weinhold var atkvæðamestur í liði Kiel með 8 mörk.
Veszprém er með fullt hús stiga, 8, á toppi B-riðils, Paris Saint German er með 6 stig eftir 32-27 sigur á Celje Lasko í dag. Flensburg er með 5 stig í þriðja sæti eftir jafntefli við Kielce 25-25 í Póllandi og Zagreb og Wisla Plock gerðu 28-28 jafntefli.

Deila