EHF Meistaradeild karla | Stórleikir um helgina | Íslendingaslagur í Barcelona

Mynd: NordicPhotos/Getty

Tveir stórleikir eru á dagskrá Meistaradeildar Evrópu á sunnudag og báðir verða þeir sýndir beint á SportTV. Klukkan 16 mætast Paris St.Germain og Veszprém og klukkan 18 verður flautað til Íslendingaslags í Katalóníu þegar Barcelona tekur á móti Rhein-Neckar Löwen. Aron Pálmarsson leikur sem kunnugt er með Barcelona og þeir heiðursmenn Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson með Rhein-Neckar Löwen. Íslendingaslagurinn er til sérstakrar umfjöllunar á heimasíðu EHF.

Í umfjöllun EHF er þess sérstaklega getið að þremenningarnir sem mætast á sunnudag hafi allir hlotið titilinn Íþróttamaður ársins í heimalandinu, Ísland; Guðjón Valur árið 2006, Alexander árið 2010 og Aron árið 2012. Guðjón Valur og Aron leika, að öllu óbreyttu, stór hlutverk í landsliði Íslands á EM í Króatíu í janúar, en Alexander lagði hins vegar landsliðsskóna á hilluna á síðasta ári.
Aron hefur ekkert komið við sögu í deildarleikjunum tveimur sem Barcelona hefur spilað eftir að hann gekk til liðs við félagið, en hann lék hins vegar ágætlega í Meistaradeildarleiknum gegn Zagreb. Aroni og unnustu hans, Ágústu Evu Erlendsdóttur, fæddist dóttir sl. miðvikudag og fréttamenn EHF telja óvíst að hann komi við sögu í leiknum á sunnudag.

Þegar liðin mættust í Mannheim í september náði Barcelona sex marka forystu í síðari hálfleik, en heimamönnum tókst með ótrúlegum hætti að éta upp þann mun og tryggja sér jafntefli.
Guðjón Valur snýr nú aftur á sinn gamla heimavöll, en hann lék með Barcelona frá 2014 til 2016, vann tvöfalt á Spáni bæði árin og Meistaradeildina 2015. Hann snéri svo á fornar slóðir í fyrra, en hann lék með Löwen frá 2008 til 2011 sællar minningar. Guðjón Valur og Aron léku saman með Kiel um tveggja ára skeið og urðu Þýskalandsmeistarar bæði árin, 2013 og 2014. Guðjón Valur gekk þá til liðs við Barcelona, hvert Aron er nú kominn, og er þá þriðji Íslendingurinn sem leikur með katalónska liðinu. Viggó Sigurðsson lék með Barcelona keppnistímabilið 1979-80 og varð spænskur meistari.
Alexander Petersson hefur leikið í Þýskalandi síðan 2003, fyrst með Düsseldorf, þá Grosswallstadt, Flensburg, Füchse Berlin og árið 2012 gekk hann til liðs við Rhein-Neckar Löwen. Alexander hefur aldrei leikið með Aroni hjá félagsliði, en þeir náðu vel saman með landsliðinu á sínum tíma. Alexander er sá eini þremenninganna sem ekki hefur unnið Meistaradeildartitil, ennþá, en Aron vann hann með Kiel 2010 og 2012 og Guðjón Valur með Barcelona 2015.

Þegar flautað verður til leiksins á sunnudag situr Rhein-Neckar Löwen taplaust í öðru sæti A-riðils með tíu stig, einu meira en Barcelona. Evrópumeistarar Vardar eru efstir í riðlinum með ellefu stig og sigur í Barcelona á sunnudag er því afar dýrmætur.

Leikur Barcelona og Rhein-Neckar Löwen verður eins og áður segir sýndur beint á SportTV klukkan 18 á sunnudag og fylgir í kjölfar annars stórleiks, Paris St.Germain – Veszprém, sem hefst klukkan 16. SportTV er í opinni dagskrá á rás 13 hjá Símanum og rás 29 hjá Vodafone.

Deila