EHF Meistaradeild karla | Löwen á toppnum

Mynd: NordicPhotos/Getty

Þýsku meistararnir í Rhein-Neckar Löwen tóku á móti Zagreb í A-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld og var leikið í SAP-Arena í Mannheim. Gestirnir byrjuðu betur og komust í 3-1 en Löwen komst í 5-4 og eftir það má segja að það hafi aldrei verið spurning um hvort liðið færi með sigur af hólmi. Staðan í hálfleik var 15-11 fyrir Löwen og þegar 10 mínútur voru til leiksloka voru þýsku meistararnir komnir 7 mörkum yfir, 27-20. Lokatölur urðu 31-24 fyrir Rhein-Neckar Löwen sem er í efsta sæti A-riðils með 8 stig eftir 5 leiki. Pick Szeged, Vardar og Barcelona hafa 7 stig en Vardar og Barcelona eiga leik til góða á Rhein-Neckar Löwen og Pick Szeged.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 3 mörk fyrir Löwen og Alexander Petersson 2. Markahæstur var línumaðurinn Hendrik Pekeler með 8 mörk, Mads Mensah skoraði 6 mörk og sænski markvörðurinn Andreas Palicka varði 18 skot í markinu. Matevz Skok varði 13 skot í marki Zagreb og Zarko Markovic skoraði 6 mörk.

Deila