EHF Meistaradeild karla | Klaufagangur var Kiel dýrkeyptur | Nantes vann öruggan sigur á Skjern

Evrópumeistarar Vardar

Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, kastaði frá sér ágætum möguleika á sigri, í það minnsta jafntefli, gegn Vardar í 8-liða úrslitum Meistaradeildar karla í handknattleik í dag. Kiel-verjar voru með boltann í stöðunni 28-28 og hófu sókn 25 sekúndum fyrir leikslok, köstuðu boltanum út af um tuttugu sekúndum síðar og Jorge Maqueda var fljótur að hugsa, skoraði beint úr innkastinu og tryggði Vardar eins marks sigur, 29-28.
Evrópumeistarar Vardar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, spiluðu þéttan og agaðan varnarleik og höfðu minna fyrir öllum aðgerðum sínum í sókninni heldur en heimamenn og staðan í hálfleik var 14-12 fyrir gestina. Kiel-verjar sýndu hins vegar dug og þor í síðari hálfleik, þéttu vörnina, Landin datt í ham í markinu og Kiel náði mest þriggja marka forystu. Lokasekúndurnar voru æsispennandi, Vardar jafnaði metin um hálfri mínútu fyrir leikslok og tryggði sér svo sigurinn með ævintýralegum hætti eins og áður segir, 29-28. Alfreðs og félaga bíður verðugt verkefni í Skopje í síðari leiknum og Evrópumeistararnir verða að teljast nokkuð líklegir til að bóka sér farseðilinn til Kölnar.
Nantes vann öruggan og sannfærandi sigur á Skjern í síðari leik dagsins, 33-27, og hugsanlega er Evrópuævintýri danska liðsins farið að styttast í annan endann. Heimamenn lögðu grunninn að sigrinum með þéttum og góðum leik í fyrri hálfleik, höfðu sex marka forystu að honum loknum, 18-12, og náðu mest tíu marka forystu í síðari hálfleik. Skjern-liðar verða seint sakaðir um að leggja árar í bát, minnkuðu forystuna niður í fimm mörk en gáfu lítið eitt eftir á lokakaflanum. Skjern-liðið er alla jafna sterkt á heimavelli og vann þar t.a.m. sannfærandi sigur á Veszprém í 16-liða úrslitunum, en stóra spurningin er hvort sex marka munur er of stór biti fyrir þá dönsku.

EHF Meistaradeild karla | 8-liða úrslit
Kiel 28-29 Vardar (12-14)
Mörk Kiel: Niclas Ekberg 4, Marko Vujin 4, Nikola Bilyk 4, Patrick Wiencek 3, Emil Frend-Öfors 3, Miha Zarabec 3, Lukas Nilsson 3, Steffen Weinhold 2, Sebastian Firnhaber 1, Ole Rahmel 1.
Varin skot: Niklas Landin 14.
Mörk Vardar: Stojanche Stoilov 5, Rogerio Ferreira Moraes 5, Ivan Cupic 5, Timur Dibirov 4, Jorge Maqueda 3, Luka Cindric 2, Vuko Borozan 2, Igor Karacic 1, Joan Canellas 1, Daniil Shishkarev 1.
Varin skot: Arpad Sterbik 11.
Nantes 33-27 Skjern (18-12)
Mörk Nantes: David Balaguer 8, Romain Lagarde 6, Dominik Klein 6, Nicolas Tournat 5, Nicolas Claire 3, Kiril Lazarov 3, Eduardo Gurbindo 2.
Varin skot: Cyril Dumoulin 7, Arnaud Siffert 2.
Mörk Skjern: Markus Olsson 6, Kaser Söndergaard 5, Christoffer Mikkelsen 4, Bjarty Myrhol 4, Anders Eggert 3, Jesper Konradsson 3, Bjarke Christensen 1, Eivind Tangen 1.
Varin skot: Emil Nielsen 7, Tibor Ivanisevic 3.

Deila