EHF Meistaradeild karla | Kiel vann þýska uppgjörið | Zagreb lagði Löwen

Mynd: NordicPhotos/Getty

Tveir leikir voru á dagskrá Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Kiel vann grannaslaginn gegn Flensburg 33-30 í jöfnum og spennandi leik þar sem Andreas Wolff fór hamförum á milli stanganna hjá Kiel og Christian Dissinger dró sóknarvagninn. Kiel hafði eins marks forystu í hálfleik, 16-15, og úrslitin réðust í raun ekki fyrr en á lokamínútunum. Patrick Wiencek skoraði fyrir Kiel rétt í þann mund sem leiktíminn rann út og það var í fyrsta og eina sinn sem þremur mörkum munaði á liðunum. Hampus Wanne skoraði eins og andsetinn maður fyrir Flensburg, Holger Glandorf fór mikinn í sóknarleiknum og Mattias Andersson varði eins og berserkur í fyrri hálfleik. Nokkru munaði fyrir Flensburg að varnareiningin Tobias Karlsson fékk að líta rauða spjaldið um miðjan fyrri hálfleikinn og um þá niðurstöðu dómaranna mætti skrifa bókaflokk.
Sigurinn er Kiel býsna mikilvægur, en liðið, og ekki síður Alfreð Gíslason þjálfari, hafa sætt gagnrýni það sem af er leiktíð. Kiel fór afar varlega af stað í Meistaradeildinni, en sigurinn í dag undirstrikar bæði snilli þjálfarans og framfarir leikmanna. Kiel lék í dag án Steffen Weinhold og Domagoj Duvnjak, en Duvnjak verður orðinn leikfær öðru hvoru megin við áramót og kemur til með að snarbreyta leik liðsins.
Rhein-Neckar Löwen, með Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson innanborðs, heimsótti Zagreb og mátti sætta sig við fjögurra marka tap, 26-30. Zagreb lék annan leikinn sinn í Meistaradeildinni undir stjórn Zlatko Saracevic og vann sinn fyrsta sigur í tíu tilraunum. Vissulega má sjá batamerki á leik liðsins undir stjórn Saracevic, en slóvakískir dómarar lögðu einnig þung lóð á vogarskálarnar. Guðjón Valur var markahæstur í liði Löwen með níu mörk, en Alexander komst ekki á blað.

Rhein-Neckar Löwen situr sem fyrr í fjórða sæti A-riðilis með 12 stig, jafnmörg og Barcelona, sem á leik til góða. Vardar er í efsta sæti riðilsins með 16 stig og Nantes í öðru sæti með 13 stig. Zagreb hefur hlotið 4 stig og er tveimur stigum á eftir Kristianstad sem situr í sjötta sæti, síðasta sætinu sem tryggir farseðilinn í næstu umferð.
Kiel hefur nú 11 stig í fjórða sæti B-riðils, jafnmörg og Veszprém, sem á leik til góða. Flensburg situr í öðru sæti með 14 stig, en Paris St.Germain er á toppnum með 16 stig.

Zagreb 30-26 Rhein-Neckar Löwen (17-13)
Mörk Zagreb: Zlatko Horvat 8, Damir Bicanic 5, Mario Vuglac 4, Matej Hrstic 3, Leon Susnja 3, Josip Valcic 3, Zarko Markovic 2, Tin Kontrec 1, Valentino Ravnic 1.
Mörk RN Löwen: Guðjón Valur Sigurðsson 9, Hendrik Pekeler 4, Andre Schmid 4, Harald Reinkind 3, Mads Mensah 2, Filip Taleski 2, Rafael Banea 1, Patrick Groetzki 1.

Flensburg 30-33 Kiel (15-16)
Mörk Flensburg: Hampus Wanne 7, Holger Glandorf 6, Simon Jeppsson 4, Kentin Mahé 4, Lasse Svan 3, Rasmus Lauge 2, Thomas Mogensen 1, Marius Steinhauser 1, Henrik Toft Hansen 1, Anders Zachariassen 1.
Mörk Kiel: Christian Dissinger 7, Lukas Nilsson 6, Patrick Wiencek 5, Niklas Ekberg 4, Christian Zeitz 4, Rune Dahmke 3, René Toft Hansen 2, Marko Vujin 2.

Deila