EHF Meistaradeild | Fimm tvíburapör í Meistaradeild kvenna

Mynd: NordicPhotos/Getty

Fjölskyldutengsl eru fjarri því að vera óþekkt í handboltaheiminum, nægir í því samhengi að minna á Karabatic-bræður og bræðurna Toft-Hansen, en tvíburar eru ekki á hverju strái. Margir kannast líklega við frönsku tvíburasysturnar Julie og Charlotte Bonaventura sem eru meðal fremstu dómara sem völ er á og svo skemmtilega vill til að tvíburapörin í Meistaradeild kvenna þetta árið eru fimm talsins.

Katrine og Kristine Lunde (Nor) | Vipers Kristiansand
Tvíburasysturnar Katrine og Kristine léku saman allt til ársins 2010 og urðu þá Evrópumeistarar með Viborg, en leiðir skildu og Katrine, sem er einn öflugasti markvörður síðari tíma, bætti Evróputitlum í safnið með Györi og Rostov. Kristine, sem er leikstjórnandi, var hætt að spila, er aðstoðarþjálfari hjá Kristiansand og tók skóna fram á nýjan leik þegar meiðslahrina gekk yfir norska liðið.
Emelie og Johanna Westberg (Sví) | Nyköping Falster Handboldklub (NFH)
Sænsku tvíburarnir hafa leikið með NFH síðan í fyrra, urðu danskir meistarar á síðustu leiktíð og komust í undanúrslit EHF-keppninnar. Þær hófu ferilinn hjá Skuru, en héldu svo hvor sína leið; Johanna fór til Randers og Emelie lék með Lund.
Fie og Cecilie Woller (Dan) | SG BBM Bietigheim
Fie Woller gekk til liðs við Bietigheim frá Midtjylland eftir EM 2016 og tvíburasystir hennar, Cecilie, fylgdi í kjölfarið í júlí á þessu ári. Fie átti sinn þátt í velgengi Bietigheim á síðustu leiktíð, sem varð þýskur meistari með fullt hús stiga, og lék til úrslita gegn Rostov í EHF-keppninni.
Thea Mörk (Larvik) og Nora Mörk (Györi)(Nor)
Thea Mörk er fyrirliði Larvik, sem er á uppleið á nýjan leik, og Nora Mörk er lykilmaður í liði ríkjandi Evrópumeistara. Nora er einn besti leikmaður heims í dag og hefur fagnað Evrópumeistaratitli með félagsliði auk heims- og Ólympíutitla með landsliði Noregs. Þær systur léku saman með Larvik áður en Nora flutti sig yfir til Ungverjalands.
Laura og Orlane Kanor (Fra) | Metz Handball
Laura og Orlane eru tvítugar og eru afsprengi unglingastarfsins hjá Metz; Laura er vinstri hornamaður og Orlane vinstri skytta.

Fyrir utan þessi fimm tvíburapör eru þrennar systur í Meistaradeildinni í ár; Manuela og Ornella dos Reis hjá Metz, Veronica Kristiansen hjá Midtjylland og Jeanett Kristiansen hjá Kristiansand og loks Anna Vyakhireva hjá Rostov-Don og Polina Kuznetsova hjá Vardar.

Deila