EHF Meistaradeild | Evrópumeistararnir eru metnir sterkastir

Mynd: NordicPhotos/Getty

Fimm umferðum er lokið í Meistaradeild karla í handknattleik, línur lítið farnar að skýrast og spekingar telja sig geta lagt nokkuð áreiðanlegt mat á það hverjir eru líklegir til afreka. Fréttamenn ehfcl.com voru fengnir til að styrkleikaraða liðunum tuttugu og átta í Meistaradeildinni og þeir voru allir nema einn sammála um efsta sætið á þessum lista. Listinn er eftirfarandi:

10. Nantes
Nantes hefur gert jafntefli við Rhein-Neckar Löwen og unnið Kristianstad og Pick Szeged. Franski fréttamaðurinn Kevin Domas hefur þetta um Nantes að segja:
9. Meshkov Brest
Brest lét að sér kveða strax í fyrstu umferðinni, vann þá Kielce með þriggja marka mun. Í kjölfarið fylgdu tveir tapleikir, en þrjú stig úr tveimur síðustu leikjum, sigurleik gegn Álaborg og jafntefli við Celje Lasko, hafa skilað Brest í fjórða sæti B-riðils. Petar Djordjic og Konstantin Igropulo, sem báðir gengu til liðs við Brest í sumar, hafa smollið vel inn í leik liðsins og mynda sterka útilínu með Dzimitry Nikulenkau.
8. Montpellier
Montpellier er eina liðið úr C- eða D-riðli sem kemst á þennan lista, enda eina liðið í riðlakeppninni sem hefur unnið alla leiki sína til þessa. Montpellier komst óvænt 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og stefna hraðbyri á útsláttarkeppnina í ár.
7. Pick Szeged
Szeged tapaði í fyrstu umferðinni fyrir Nantes, nokkuð óvænt, en síðan hafa stigin hrannast upp. Szeged situr í þriðja sæti A-riðils með jafnmörg stig og Barcelona. Zsolt Balogh hefur farið fyrir sóknarsveit sem dreifir markaskorun bróðurlega á milli manna, tíu leikmenn komust t.a.m. á blað í jafnteflinu við Vardar. Sá leikur gaf til kynna að Szeged ber að taka alvarlega, en liðsins bíða erfiðir leikir gegn Löwen og Barcelona.
6. Rhein-Neckar Löwen
Það er ekki undan mörgu að kvarta hjá Þýskalandsmeisturunum, sem eru taplausir eftir fimm umferðir. Liðið hefur tapað stigum gegn Barcelona og Nantes og er stigi á eftir Vardar í A-riðli. Andy Schmid hefur spilað eins og engill og Svínn ungi Jerry Tollbring, sem kom frá Kristianstad í sumar, þykir smella nánast óaðfinnanlega inn í liðið. Löwen er með besta markahlutfallið í riðlakeppninn og Þjóðverjarnir fara fullir sjálfstrausts inn í tvo leiki gegn Vardar, baráttuna um toppsætið.
5. Flensburg
Flensburg tapaði naumlega fyrir Veszrpém og fyrrverandi þjálfara sínum, Ljubomir Vranjes, í fyrstu umferðinni, en hrökk í gírinn gegn stjörnum prýddu liði Paris St.Germain og vann þar nokkuð óvæntan sigur. Flensburg hefur sótt stig á tvo erfiða útivelli, gerði jafntefli við bæði Kielce og Kiel úti, og sannaði þar að liðið getur sótt erfið stig þegar á þarf að halda, nokkuð sem gæti reynst ómetanlegt þegar fram í sækir.
4. Barcelona
Barcelona tapaði fyrir Vardar 24-27 í fimmtu umferðinni, en úrslitin gefa ekki rétt mynd af gangi mála. Börsungar áttu ekki möguleika í þessum leik, en tilkoma Arons Pálmarssonar fleytir þeim upp í fjórða sæti þessa styrkleikalista. Bara hann, ekkert annað. Aron er ósköp einfaldlega einn besti handboltamaður heims í dag, spilar sinn fyrsta leik með Barcelona í Meistaradeildinni gegn Zagreb á laugardag í beinni á SportTV, og íþróttafréttamaðurinn Björn Pazen heldur því fram að Aron eigi eftir að skila Barcelona á topp næsta styrkleikalista. Það er bara þannig.
3. Paris St.Germain
Stjörnufansinn í París hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar ennþá, Parísarliðið hefur spilað svona nokkurn veginn nógu vel til að skila í hús fjórum sigrum í fimm leikjum. Liðið verður ógnvænlegt þegar það hrekkur í gang. Sander Sagosen hefur glatt þá sem til hafa séð, hann fellur afar vel inn í leik liðsins og er til alls líklegur. Leikurinn gegn Veszprém í sjöundu umferð verður afar áhugaverður og leggur svolítið línurnar fyrir bæði lið.
2. Veszprém
Veszprém hefur spilað nokkra erfiða leiki, leikjaniðurröðunin gerði þeim enga greiða, og þrátt fyrir talsverðar breytingar á leikmannahópnum hefur Ljubomir Vranjes tekist að hrista saman gott lið. Brotthvarf Arons Pálmarssonar hefur tekið sinn toll, en ungverska liðið hefur lagað sig ótrúlega vel að þessum breytingum og Mate Lekai hefur farið hamförum. Arftaki Arons var valinn besti leikmaður september-mánaðar í Meistaradeildinni.
1. Vardar
Ríkjandi Evrópumeistarar Vardar þykja líklegir til að aflétta „meistarabölvuninni“; Evrópumeisturum hefur ekki tekist að verja titilinn síðan Ciudad Real gerði það 2009. Vardar skartar öflugustu vörninni í Meistaradeildinni og hefur brugðist fullkomlega við brotthvarfi Alex Dujshebaev. Sigurinn gegn Barcelona tryggði þeim ekki aðeins toppsætið í A-riðli, heldur og toppsætið á þessum styrkleikalista.

Deila