Dominosdeild karla | Tindastóll vann háspennuleik á Króknum og tryggði sér sæti í úrslitum

Tindastóll vann ÍR í kvöld 90-87 í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Dominosdeildar karla í körfuknattleik og tryggði sér þar með sigur í viðureigninni, 3-1, og sæti í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Boðið var upp á háspennuleik af allra bestu gerð á Króknum í kvöld, mögnuð tilþrif á báða bóga og í fyrsta og eina sinn í rimmunni stóð heimaliðið uppi sem sigurvegari.
Tindastólsmenn höfðu undirtökin framan af, voru stigi yfir eftir fyrsta leikhluta og höfðu sjö stiga forystu í hálfleik, 52-45. ÍR-ingar mættu grimmir til síðari hálfleiks, gerðu sig nokkrum sinnum líklega til að jafna metin í þriðja leikhluta, en það tókst þó ekki fyrr en í fjórða og síðasta leikhluta og reyndar gott betur en það; um fjórða leikhlutann miðjan voru ÍR-ingar komnir fimm stigum yfir. Stólarnir snéru þá bökum saman og fögnuðu þriggja stiga sigri eftir dramatískar og líflegar lokamínútur, þar sem m.a. lokaskot ÍR-ingsins Matthíasar Orra Sigurðssonar dansaði á körfuhringnum.

Dominosdeild karla | Undanúrslit | Leikur 4
Tindastóll 90-87 ÍR (26-27, 26-18, 24-24, 14-18)
Tindastóll: Antonio Hester 26/8 fráköst/5 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 16/4 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 15, Axel Kárason 7/5 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6, Helgi Rafn Viggósson 5, Chris Davenport 4/6 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 4, Viðar Ágústsson 4, Hannes Ingi Másson 3.
ÍR: Ryan Taylor 25/18 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 16, Matthías Orri Sigurðarson 15/6 fráköst/5 stoðsendingar, Danero Thomas 15/5 fráköst, Sveinbjörn Claessen 9/5 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 5/4 fráköst, Kristinn Marinósson 2.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson

Deila