Cristiano Ronaldo vann Gullknöttinn í fimmta sinn

Mynd: NordicPhotos/Getty

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo vann Gullknöttinn eða Ballon d’Or verðlaunin í fimmta sinn en sigurvegarinn var kynntur í kvöld. Það er franska tímaritið France Football sem stendur fyrir kjörinu.

Ronaldo hefur verið magnaður með Real Madrid á þessu ári en hann vann Meistaradeild Evrópu auk þess sem hann skoraði 42 mörk í 46 leikjum á síðasta tímabili. Hann er með 12 mörk í 18 leikjum á þessari leiktíð.

Lionel Messi hjá Barcelona var í öðru sæti í kjörinu og þá var hinn brasilíski Neymar í þriðja sæti en Gianluigi Buffon lenti í fjórða sæti. Króatinn Luka Modric var þá í fimmta sætinu.

Þetta er í fimmta sinn sem Cristiano Ronaldo vinnur Gullknöttinn 2008, 2013, 2014, 2016 og nú 2017. Hann og Lionel Messi hafa báðir unnið hann fimm sinnum en Ballon d’Or er ekki lengur sameinað ásamt verðlaunum FIFA sem besti leikmaður heims.

Messi vann sameinuðu verðlaunin fjórum sinnum en Ronaldo einu sinni. Frá því France Football og FIFA hættu samstarfi hefur Ronaldo unnið Ballon d’Or verðlaunin í bæði skiptin.

Deila