Coca Cola bikarinn | Óvæntur sigur HK – Sannfærandi sigur hjá Akureyri

Það var mikið líf og fjör í fyrstu umferðinni í Coca-Cola-bikar karla- og kvenna í kvöld en kvennalið HK vann óvæntan 29:21 sigur á Olís-deildarliði Selfoss.

HK fór með 15:13 forystu inn í hálfleikinn og í þeim síðari tókst þeim að stinga Selfyssinga af. Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir var með 8 mörk fyrir HK og þá var Sigríður Hauksdóttir með 7 mörk. Tinna Sól Björgvinsdóttir var með 5 mörk. Perla Ruth Albertsdóttir var með 5 mörk fyrir Selfoss.

KA/Þór vann 37:23 sigur á FH í hinum bikarleiknum í kvennaflokki. KA/Þór var 15:14 yfir í hálfleik en í þeim síðari fóru mörkin að raðast inn. Martha Hermannsdóttir var með 14 mörk fyrir KA/Þór og þá var Katrín Vilhjálmsdóttir með 7 mörk. Diljá Sigurðardóttir var markahæst í liði FH með 7 mörk.

Þá fór einn leikur fram í Coca-Cola-bikar karla. Akureyri rústaði ÍH 42:21. Akureyringar voru 22:9 yfir í hálfleik og héldu áfram veislunni í þeim síðari. Ihor Kopyshynskyi gerði 12 mörk fyrir Akureyri og Arnþór Gylfi Sveinsson var þá með 10 mörk.

Úrslit kvöldsins:

Coca-Cola-bikar kvenna:

HK 29:21 Selfoss
KA/Þór 37:23 FH

Coca-Cola-bikar karla:

Akureyri 42:21 ÍH

Deila