Aron: Draumur minn frá 15 ára aldri var að spila fyrir Barcelona

Aron Pálmarsson á blaðamannafundinum í dag

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, var í dag kynntur sem nýr leikmaður Barcelona á Spáni.

Aron sem hefur verið á mála hjá ungverska félaginu Veszprém síðustu ára vildi yfirgefa félagið í sumar og semja við Barcelona en viðræður gengu erfiðlega. Það gekk þó allt upp á endanum og í dag var hann kynntur. Hann mun spila í treyju númer 34.

Íslenski landsliðsmaðurinn er í skýjunum með skiptin og ræddi þau í dag.

,,Ég vil þakka félaginu, þjálfurunum og öllum þeim sem hafa staðið með mér. Ég er stoltur að fá þetta tækifæri að spila með stærsta félagi heims. Ég sagði það þegar ég var 15 ára á Íslandi að draumaliðið mitt væri Barcelona. Draumar rætast og ég er mjög þakklátur og stoltur yfir því að vera partur af þessu risastóra félagi,“ sagði Aron á fréttamannafundinum.

Blaðamennirnir spurðu út í stöðuna hans í sumar og hvort það hafi tekið á. Aron var þó þakklátur fyrir að þetta hafi gengið upp.

,,Ég vildi ganga frá þessu í júní en staðan var svona. Ég er ánægður að vera hérna núna og að þetta hafi klárast. Þetta var langt sumarfrí og ég er bara ánægður að þetta er frá.“

,,Þetta var erfitt. Það voru lausir endar og ég vissi ekki 100 prósent hver framtíð mín yrði. Ég á góða fjölskyldu og góða vini auk þess sem Barcelona hjálpaði mér mikið og hafði trú á mér. Þetta var erfitt en það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari fyrir vikið,“ sagði hann ennfremur.

Aron var spurður út í ástandið á líkamanum en hann segist klár í þetta. Hann á þó eftir að læra inn á nýja liðið.

,,Ég er í líkamlega mjög góðu standi. Það sem David var að segja með nýja kerfið og nýja liðið er að ég þarf aða læra leikkerfin og það tekur tíma. Ég er mjög fljótur að læra og því held ég að þetta taki ekki langan tíma,“ sagði Aron.

Deila