Áhugaverð ummæli Unsworth – ,,Skiptir ekki máli hvað þú kostar“

Mynd: NordicPhotos/Getty

David Unsworth, bráðabirgðastjóri Everton á Englandi, var ósáttur með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gær en heimamenn í Leicester höfðu betur, 2-0.

Everton rak Ronald Koeman á dögunum eftir slaka byrjun hans hjá félaginu á þessu tímabili en Unsworth tók við liðinu til bráðabirgða. Hann er búinn að stýra liðinu í síðustu tveimur leikjum en liðið datt út fyrir Chelsea í Carabao-bikarnum og þá tapaðist leikurinn í gær.

Gylfi Þór Sigurðsson var á bekknum í báðum leikjunum en kom inná á 74. mínútu í gær.

Íslenski landsliðsmaðurinn virðist ekki vera hugsaður sem lykilmaður í plönum Unsworth sem kom með áhugaverð ummæli eftir tapið í gær.

,,Frammistaðan í fyrri hálfleik er ekki ásættanleg. Við ákváðum þó að bregðast við því og vorum yfirburðalið í þeim síðari, þó án þess að ná þeim úrslitum sem við áttum skilið,“ sagði Unsworth.

,,Ég vel það lið sem ég tel geta unnið hvaða fótboltaleik sem er. Það skiptir engu máli hversu stór leikmaðurinn er eða hvað hann kostaði,“ sagði Unsworth, en Gylfi kostaði liðið 45 milljónir punda í sumar og er dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

,,Sá sem tekur við Everton þarf tíma með alla þessa leikmenn og ég tel sjálfan mig með þar. Þetta tekur tíma því menn eru með misjafnar hugmyndir um hvernig á að spila. Ég er með ákveðnar hugmyndir og það þarf tíma til þess að koma þeim í gegn,“ sagði Unsworth í lokin.

Deila